Hvað er Moonfire
Ég heiti Íris Ösp og er manneskjan á bakvið Moonfire.
Ég hef alltaf verið náttúrubarn.
Uppalin úti á landi, nálægt sjónum, með tærnar í mosanum og úfið hár. Þar lærði ég að hlusta á kyrrðina. Að sjá litlu hlutina sem lífið býður okkur, ef við gefum okkur tíma.
En eins og svo mörg missti ég tengslin við þetta á köflum. Ég gleymdi hvað það er mikilvægt að stoppa. Festist í hraða samfélagsins, kröfum, skjám og verkefnum.
Það er mannlegt. Það er eðlilegt. En það er líka hægt að velja aftur. Velja að draga andann. Velja að mæta sjálfum sér með mildi.
Moonfire varð til úr þeirri þrá að skapa slíkt rými – fyrir mig og þig.
Ég er alls konar.
Ég er heilari, grafískur hönnuður, ljósmyndari og listakona. Ég er föndrari… og stundum flúra ég fólk.
Ég lærði á Ítalíu, þar sem ég uppgötvaði enn dýpra hversu mikilvægt það er að hægja á sér. Þar sá ég hvernig aðrar þjóðir tileinka sér ró í hversdagslífinu, eitthvað sem við Íslendingar mættum læra af.
Ég er líka combat kennari. Ég kenni mixed martial arts og losa þannig spennu, svitna út daginn og tengist styrk líkamans. En þegar kyrrðin kallar, fer ég inn á við. Í hugleiðslu. Í heilun eða í listina mína. Þar vinn ég með hjartanu.
Listin mín snýst um að horfa inn á við.
Í ljósmyndaseríunni Hringir – Circles fanga ég smáatriði í íslenskri náttúru sem mörg sjá ekki. Með macro linsu stækka ég mynstur mosans, sár í trjáberki eða örlítil form sem minna okkur á að fegurðin býr undir fótum okkar, ef við stoppum til að sjá. Og vá, náttúran er svo stórkostleg!
Í þrívíðu verkunum mínum, Skuggar tilverunnar, bið ég þig að líta inn á við. Að mæta því í sjálfum þér sem þú kannski hefur ýtt til hliðar.
Þau minna okkur á að við erum ekki annað hvort ljós eða myrkur – við erum bæði. Þegar við viðurkennum það, skapast rými fyrir kærleika og vöxt.
Ég býð þér rými, verkfæri og orku með mjúka nærveru – en lækningin sjálf kemur alltaf innan úr þér. Heilun er ekki áfangastaður. Hún er einfalt verkfæri til að muna – örlítið betur – hver þú ert.
Ferðin mín sem heilari er bæði formleg og óformleg. Ég lærði Reiki hjá Svövu Bjarnardóttur, en vegferðin hefur leitt mig víðar – í gegnum námskeið, eigin rannsóknir og lífið sjálft.
Ég hef meðal annars tileinkað mér orkusálfræði, ljósvinnu og sjamaníska orkuheilun. Hvert þessara verkfæra hefur kennt mér nýjar leiðir til að hlusta á orku, líkama og hjarta – og bjóða öðrum rými til að finna sitt eigið jafnvægi.
Ef Moonfire getur verið örlítið ljós sem minnir þig á að hægja á, sjá þig betur eða vinna úr einhverju sem heldur aftur af þér, þá er það nóg.
Frá mínu hjarta til þíns.
Íris Moonfire